Hvernig fær maður bílpróf?

Allt sem þú þarft að vita um ökunámiðbílpróf

Ökunámið í einfaldri mynd

Til þess að keyra á götum Íslands þá þarftu bílpróf og ef þú vilt fá bílpróf þá þarftu að klára ökunámið.

Samkvæmt lögum má hefja ökunám 16 ára, en þú færð ekki bílpróf fyrr en þú verður 17 ára og hefur lokið ökunáminu.

Í stuttu máli er ökunáminu skipt upp í

  • 15+ verklega ökutíma með ökukennara
  • 3 námskeið (2 bókleg og 1 verklegt námskeið)
  • Æfingarakstur
  • 2 próf (1 verklegt og 1 bóklegt)

Í heildina kostar allur pakkinn frá 270.000 kr upp í 400.000 kr.

Til þess að hefja ökunám er lang best að heyra í góðum ökukennara sem getur leitt þig í gegnum ferlið.

Bílpróf í lengra máli

Að læra á bíl getur verið ruglandi. Margir aðilar koma að því og það er erfitt að átta sig á hvar maður er í ferlinu.

Til að einfalda málið er hægt að skipta ökunáminu niður í 11 skref:

  1. Finna sér ökukennara
  2. Fá námsheimild frá sýslumanni
  3. Ökuskóli 1
  4. Æfingaakstur
  5. Ökuskóli 2
  6. Klára 12 ökutíma
  7. Ökuskóli 3
  8. Klára 5 fleiri ökutíma
  9. Skriflegt próf
  10. Verklegt próf
  11. Bílprófi náð (Bráðarbirgðar- og fullnaðarskírteini)

Finna sér ökukennara

Fyrsta skrefið í ökunáminu er að finna sér ökukennara sem passar við mann. Almennt er best að spyrja vini sína hvaða ökukennara þeir séu hjá og heyra í þeim.

Full ástæða er til að vanda valið á ökukennaranum því að hann fylgir þér gegnum allt ökunámið. Gott er að hafa í huga hvort kennsluáætlun hans samræmist þínum þörfum, hvort tími dagsins sem hann kennir henti þér og hver kostnaður ökutímanna er.

Fá námsheimild frá sýslumanni

Áður en þú hefur nám af alvöru skaltu fá námsheimild frá Sýslumanni. Þú gerir það inn á ísland.is og ferð svo á skrifstofu sýslumanns með passamynd. Þú ættir að fá námsheimild áður en þú hefur námið.

Þú getur sótt um námsheimild hérna: https://island.is/fyrsta-okuskirteini-namsheimild

Ökuskóli 1

Ökuskóli 1 er fyrsti hluti bóklegs ökunáms. Algengt er að nemendur taki ökuskóla 1 á netinu (t.d hjá okkur og öðrum netökuskólum), en það er enn þá hægt að sitja tíma í kennslustofu.

Hægt er að lesa meira um hvernig ökuskóla 1 er háttað hjá okkur hérna.

Æfingaakstur

Æfingaakstur fer þannig fram að nemandinn æfir sig að aka venjulegum bíl með leiðbeinanda sem gjarnan er foreldri eða forráðamaður.

Þegar Ö1 og að minnsta kosti 10 verklegum tímum er lokið má sækja um leyfi til æfingaaksturs. Ökukennarinn metur hvort og hvenær nemandi er tilbúinn að hefja æfingaakstur og staðfestir það með sérstöku vottorði.

Þegar tryggingafélag hefur staðfest að vátrygging sé í gildi vegna æfingaaksturs er hægt að sækja um heimild til sýslumanns.

Æfingaakstur er ekki skylda í ökunámi en það er góður valkostur til að fá sem bestan undirbúning fyrir akstur í framtíðinni.

Athugið að leiðbeinandinn verður að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • hafa náð 24 ára aldri
  • hafa gild ökuréttindi og a.m.k. 5 ára reynslu af akstri
  • ekki hafa verið án ökuskírteinis eða verið refsað fyrir vítaverðan akstur síðastliðið ár

Ökuskóli 2

Ökuskóli 2 er framhald af ökuskóla 1 og er háttað á sama máta. Nemandi þarf að ljúka þeim báðum áður en hann getur tekið skriflega prófið.

Ökuskóli 3

Nemandi þarf að hafa lokið 12 ökutímum til að geta farið í Ökuskóla 3.

Ökuskóli 3 er verklegt námskeið sem fer fram í ökugerði. Tilgangur ökugerðisins er að líkja eftir aðstæðum þar sem nemandi upplifir það að missa vald á bílnum. Það er gert með hálkubrautum eða skrikbíll, malarvegum og veltubíl.

Það þarf að klára ökuskóla 3 áður en nemandi má taka verklegt próf.

Skriflegt ökupróf

Skriflega prófið er 30 spurninga krossapróf sem skiptist í A og B-hluta.

Í A-hluta eru 15 spurningar um umferðarmerki, yfirborðsmerkingar á vegum og forgang í umferð. Í B-hluta eru 15 almennar spurningar um umferðina, bílinn, ökumanninn og skyndihjálp.

Við hverri spurningu eru gefnir þrír valmöguleikar og geta ýmist einn þeirra, tveir eða allir þrír verið réttir. Það telst villa ef hakað er við röng svör en einnig ef ekki er hakað við rétt svör.

Nemandi má að hámarki vera með 7 villur í prófinu öllu og aðeins tvær villur í A-hluta. Niðurstöðuna fær nemandi strax að loknu prófi.

Ef nemandi stenst ekki prófið verður að líða a.m.k. ein vika þangað til hann getur gert aðra tilraun.

Það er ansi algengt að nemendur falli í þessu prófi og við mælum með því að æfa sig vel fyrir prófið. Hver próftaka kostar 6,550 kr, þannig það getur orðið dýrt að falla endurtekið.

Verklegt ökupróf

Til þess að geta farið í verklegt próf þarf maður að hafa lokið 15 verklegum ökutímum og klárað Ökuskóla 1, 2 og 3.

Verklega ökuprófið skiptist í tvo hluta; munnlegt próf og verklegt próf. Munnlega prófið er tekið í bílnum. Prófdómarinn spyr um ýmislegt í sambandi við bílinn; t.d. ljósabúnað, stjórntæki, öryggisbúnað og viðhald. Ef munnlega prófið gengur vel tekur verklega prófið við í beinu framhaldi. Ekin er viss leið sem prófdómari ákveður og hann skráir hjá sér plúsa og mínusa. Verklega prófið kostar 17.370 kr.

Prófdómarinn kveður upp úrskurðinn strax að loknu prófi.

Bráðarbirgðar- og fullnaðarskírteini

Ökuskírteini

Ökuskírteini

Þegar prófunum er náð og náminu lokið fær nemandi fyrsta ökuskírteinið sem er svokallað bráðabirgðaskírteini.

Bráðabirgðaskírteini gildir í þrjú ár og á meðan þarf færri punkta til þess að missa ökuréttindin. Hafi ökumaður með bráðabirgðaskírteini ekki fengið punkt vegna umferðarlagabrota í eitt ár og hafi ekki verið sviptur ökuréttindum í 12 mánuði getur hann farið í akstursmat hjá ökukennara.

Eftir akstursmatið fær hann fullnaðarskírteini sem gildir í 15 ár.

Þá er formlegu námi lokið.

Annað efni

Á vef Samgöngustofu er hægt að finna allskonar efni um ökunámið

Hvað kostar bílpróf?

Ef þú hefur frekari spurningar getur þú líka sent okkur tölvupóst á hallo@urdarbrunnur.is.

Uppfært 15. desember 2023